29 June 2009


















Satistafrænka mín nuddarinn, fór ekki mjúkum höndum um stokkbólgnar herðar og háls áðan. En eitthvað er hún að gera rétt, því ég er bara allt önnur í vöðvabólgunni eftir örfáa tíma á bekknum. Skrítið hvað sumt vont getur verið gott. Samt er nú flest vont ekkert gott.

Veðrið er fáránlega gott í dag, og ég sem var að vona að VeðurGuðinn myndi spara góða veðrið þangað til í næstu viku, þegar sumarfríið mitt mun banka uppá. En kannski á hann extra mikið af því.

Dofrinn er kominn til elskulegu móður sinnar og þykir mér heimurinn allbetri þegar hann er heima. Er farin að hlakka til að sumarleifast með drengnum, útum allt land helst á kagganum góða.

Deili ekki fleiri leyndarmálum með ykkur að sinni. Over and out.

25 June 2009

Dýr jarðarinnar eða kannski frekar háloftanna hafa líst vanþóknun sinni á bílakaupum mínum og í dag var kúkað á bílinn minn! Einhver óprúttin lofthæna gerðist svo frökk að skilja eftir hvíta kúkaklessu á fallega nýbónaða jeppanum mínum. Hún hefur eflaust haldið að ég væri útrásarvíkingur, en ekki bláfátæk einstæð móðir sem hefur nurlað fyrir kagganum í mörg ár. Ég fyrirgef henni. Ég veit hvernig henni líður.

Annars er búið að plana fyrstu hálendisferð sumarsins á kagganum. Ekið suður á land til Víkur og þaðan uppí Landmannalaugar og þvínæst norður yfir Kjöl, heim til ma og pa. Þetta verður svona létt-fjallaferð. Ég hlakka alveg svakalega til, þó ég þurfi að sofa í tjaldi....já...jafnvel þó....

21 June 2009

Djúpt sokkin heróínsjúklingur eða kona í raunveruleikanum?

Mig hefur dreymt sama drauminn í nokkur ár núna. Að eignast jeppa, jafnvel bara lítinn jeppa, sem ég gæti skrattast á uppá smáfjöll þar sem ég er meira fyrir að keyra á fjöll en ganga.
Núna lít ég útum eldhúsgluggann á klukkutímafresti og skoða jeppann minn og til að vera viss um að ég sé í raunveruleikanum, þá klíp ég mig í leiðinni. Ég get svo svarið það að handleggirnir eru orðnir bláir og marnir eins og á djúpt soknum heróínsjúlkingi, af öllu þessu klípi.

But HE's mine....

*dæs* alveg ótrúlegt hvað dauðir hlutir geta gert mann hamingjusamann, ég hefði aldrei trúað því....

Gamla Elantran mín eignaðist gott heimili hjá góðlegum manni og þakka ég henni fyrir góða þjónustu.

Góðar stundir.

14 June 2009

Kreppa-sveppa tínsla


Fékk mér göngutúr í góða veðrinu í dag. Þegar ég rölti heim sé ég "eldri" borgara, virðulega dömu, líklega á níræðisaldri bogra yfir einhverju á miðri umferðaeyju hérna á Háaleitisbrautinni.


Svei mér þá ef hún var ekki bara að tína "ofskynjunarsveppi".


Hvað annað gæti hún hafa verið að gera? Ég velti þessu dálítið fyrir mér....