27 October 2008

Loksins barði kreppan mig all-illilega


Hvað geri ég á morgun þegar ég vakna og ætla að fá mér morgunmat og ekkert Cheerios til?!
Kreppan náði í rassinn á mér endanlega....nú ert ástandið orðið raunverulegt. Ekkert Cheerios var til í Bónus í dag. Hillurnar galtómar. Mér líður illa....

25 October 2008

Laugardagsmorgun...

Er að gaufast hérna á náttfötunum með kaffibollann sem minn sálufélaga og klukkan orðin nálægt hádegi. Búin að fara yfir verkefni frá nemönd og planið er að fara út í góðan göngutúr. Veit eiginlega ekki hvað ég á að skrifa um. Á ég að skrifa um...

a) drulluna sem er að koma í ljós þegar fjarar undan útrásarvíkingunum? Líkist eiginlega hálfgerðu kviksyndi og mér sýnist að við öll séum að sogast ofan í drullupyttinn (sem stækkar og stækkar) með hornin á höfðinu...eða var það túrban....anyway það er eitthvað hryðjuverkalegt?

b) gleðifrétt um hvað er frábært að vera á dragnótarbát og hvað handtökin voru fumlaus og æfð þegar fiskur var dreginn um borð (feel good frétt á mbl.is, svona fyrir utan sjóveikina)?

c) manninn sem bauð mér á deit í vikunni og sagðist hugsa um mig í vöku og svefni, að ég væri í huga hans og hjarta, eiginlega eins og krabbamein, alveg útum allt?

d) að hárið á Söru Palin verðir aðalsigurvegarinn í forsetakosningum vestanhafs....(voðalega hafa ameríkanar slæman hár-smekk og fréttin er fáránleg, eða ameríkanar, eða bæði)?

Ég er voða mikið í vafa....

20 October 2008

Topp tíu listi karlmannsins

Sjálfboðaliðinn sendi mér Topp 10 listann sinn yfir bjánakonur sem hann hefur deitað og danglast með. Ég held hann sé verri en minn, svei mér þá, eða allavega ekki betri. Konur eru líklega líka bjánar.
Verði ykkur að góðu!

10. Konan, sem ætlaði að gera afmælisdaginn minn ógleymanlegan á mjög persónulegan hátt, gerði það....með því að fara í fílu út af fyrrverandi manni sínum og kvöldið varð ónýtt!

9. Konan ætlaði að eiga rómantískasta kvöld ever, hljóp út frá því, þar hún fékk samviskubit yfir því að líða svo vel hjá mér!

8. Konan kom sérstaklega í bæinn að norðan til að hitta mig og hringdi og sagðist vera á leiðinni en gleymdi greinilega að beygja á réttum stað því hún endaði fyrir norðan í lokin án þess að koma í heimsókn!

7. Konan bauð mér að vera hjá sér yfir nótt en sparkaði mér úr rúminu kl. tvö um nóttina og sagðist þurfa að fara að sofa og vildi sofa í friði!

6. Konan lýsti sér sem þvílíkri dís en þegar hún opnaði hurðina þá var Gilitrutt fegurðardrotting aldarinnar í samanburði við hana!

5. Konan bauð mér í sturtu með sér en sturtuklefinn var svo lítill að hún komst bara fyrir og ég beið fyrir utan kaldur og rómantíkin fór svooooooooooniður fyrir frostmark!

4. Konan var búin að hugsa svo mikið um draumastefnumótið sitt sem hún margröflaði um, að hún hafði gleymt að fara í bað eftir að “Rósa frænka” var í heimsókn!

3. Konan lýsti því yfir að hún væri meistarakokkur en samt tókst henni að brenna einfaldan mat og afsakaði sig með því að vera ekki í stuði til að elda!

2. Konan var búinn að tala mikið um að hittast á góðum veitingastað og eiga rómó stund saman en fatasmekkur hennar var svo lélegur að ég fílaði mig eins og að sitja með róna sem var í stigapoka skóflandi í sig matnum eins og jarðýta………maður missti hratt matarlystina við þetta!

1. Konan, bauð mér heim í rómó kaffi og "eitthvað með því" en var svo að strauja á fullu á meðan sem var algjör rómó killer og turnoff fyrir mittítalska blóð!


Ha...ha..ha...ha... gott að ég er ekki ein um að vera í lúðadeildinni. Takk fyrir þetta "lúðadeildarspilari".

16 October 2008

Loksins þegar iðnaður blómstrar á Íslandi og gæti hugsanlega verið okkar einasta ljós í efnahagsmyrkrinu ræðst lögreglan til athlögu og upprætir björtustu von í útflutningi landsins! Þessi verksmiðja hefði líklega getað bjargað þjóðarbúinu og skapað miklar gjaldeyristekjur. Ég varð hálf skúffuð þegar ég vissi um hvað blaðamannafundurinn fjallaði. Ég hafði gert mér í hugarlund að það væri dáldið af blóði, líkum og geðsjúklingum sem gengju lausir. Langaði í krassandi sögu, en líklega verð ég bara að fara í Mál og Menningu til að ná mér í alvöru glæp.


Hér hefur karlmaður látið í sér heyra í kommentakerfinu og vill gjarnan deila Topp 10 lista sínum yfir bjána-konur sem hann hefur hitt í gegnum lífið og ég hef tekið að mér að birta þennan lista, þegar mér hefur borist hann í hendur. Mér leikur forvitni á að vita hvort minn og hans listi séu eitthvað líkir. Vona að hann standi við gefin loforð um að senda mér Toppinn, en annars verður hann komin á bjánalistann minn.

Svona til að rétta aðeins úr eldamennskukútnum, þá eldaði ég dýryndis fisk í kvölmatinn. Birti hér myndir af fallega fiskréttinum mínum og ljóta kúknum á pönnunni. Þetta er alltaf bara í ökla eða eyra.



13 October 2008

Orðlaus, þreytt en byrjuð að föndra aftur ;o)
Heimilisiðnaðurinn blómastrar sem aldrei fyrr. Ætli allir fái ekki heimatilbúnar jólagjafir í ár?!... og gúllasið að brenna á pönnunni. Og Dofrinn minn er kominn heim....jibbbýýýý...

......HLÉ....

..... og nú er búið að borða, reyndar var lítið borðað, því ég er ótrúlega lunkin í því að fara að gera eitthvað annað en elda mat þegar ég elda mat. Á borð voru borin flamberuð hrísgrjón með góðri brunalykt, glerhörð smábrauð töluvert dökk á lit, og Tikka Masala gúllas sem leit út eins og kúkur á pönnu! Verði ykkur að góðu....

Ræsisrotturnar munu halda veislu í kvöld og ég og Dofri munum eftir ca klukkutíma laumast í eldhúsið aftur í leit að einhverju ætu. Á morgun ætla ég að elda lærisneiðar og vanda mig óskaplega mikið!

11 October 2008

Í ljósi nýliðinna atburða og þess að ég horfði á dönsku bíómyndina Nynne í gærkvöldi um single-konuna í deitbransanum, ákvað ég að búa mér til lista. Ekki lista fyrir menn sem ég hata vegna einhvers eins og danska stelpan heldur lista yfir mestu bjána sem ég hef hitt um ævina.

Topp tíu yfir mestu bjána sem Kolbrún hefur fyrirhitt á lífsleiðinni. Tek það fram að sumir mennirnir eru á fleiri en einum stað í þessum lista, enda voru þeir erki-aular.

10. maðurinn sem bauð mér í mat og átti ekkert til að elda!

9. maðurinn sem vildi klæða mig upp eins og 60 ára kennslukonu!

8. maðurinn sem bauð mér til sín en ætlaði svo ekkert að vera heima!

7. maðurinn sem beið við dyr hverrar konu sem hann kynntist með tannburstann í bónuspoka!

6. maðurinn sem bauð uppá rómantík dauðans en vildi engin tengls!

5. maðurinn sem röflaði yfir mér mörg kvöld en hafði engann áhuga. Honum hlýtur að hafa leiðst heima hjá sér!

4. maðurinn sem bauð mér út að borða og hélt ég væri í vöruskiptum, kynlíf-matur!

3. maðurinn sem gat ekki verið í baði með mér, því hann hafði áhyggjur af rakaskemmdum í gólfi ef vatnið flæddi útfyrir!

2. maðurinn sem bauð mér á árshátíð og hringdi 5 mín fyrir og sagðist vera hættur við að bjóða mér og ætla einn!

1.maðurinn sem sagði að hann væri skotinn í annari konu, en vildi samt hitta mig áfram!


*Dæs* ég segi bara "áhyggjur af efnahagsástandi heimsins?? my ass, ég hef miklu meiri áhyggjur af því að karlpeningur landsins sé orðin að dreggjum þjóðfélagsins.
Skokkaði lítinn hring í hverfinu mínu í morgunsárið og sá ekki betur að Ísland væri við hestaheilsu svona líffræðilega. Lífið og tilveran brosti á móti mér, sól og blíða, Esjan falleg og Laugardalurinn í sínu fallegasta pússi. Hann skreyttu svo eldra fólk á morgungöngunni og einstaka unglamb á hlaupum.

Blótaði mér í sand og ösku yfir því að rekast alltaf á myndarlega lögreglumanninn á eftir hæðinni þegar ég er nývöknuð með Jonny Rotten hárgreiðsluna eða á kartöflusekkjanáttfötunum úr RL í þvottahúsinu. Hvernig væri nú að ég reyndi að vera hugguleg til fara svona einu sinni þegar ég rekst á þetta barn?! Set það á To do listann minn ;o)

Í gærkvöldi var svona sjálfsknúsarkvöld hjá mér. Kveikti á kertum, fór í náttföt og skenkti mér hvítvíni í eitt glas, dempaði ljósin og sleit svo loftnetssnúruna í sundur í einhverju brasi og endaði með verkfærakassann á gólfinu, töng í einni hendi og dúkahníf í hinni. Sjálfselskan og rómantíkin sem hafði skapast við kertalýsinguna rauk útí verður og vind og nú snjóar í sjónvarpslandi, frekar meira en áður. Fattaði ekki banka uppá hjá löggunni og leika bjargarlausa konu. Stupid woman!!!!

09 October 2008

Þessi færsla er sérpöntuð fyrir fallhlífastökkvarastelpuna nöfnu mína í Ameríku sem bíður með gestakojurnar ready þegar íslenskir vinir og ættingjar flýja sökkvandi sker.

Geir er farinn að opna sig og heldur blaðamannafundi á hverjum degi þar sem skýrt er frá óskýrri stöðu mála á bankamarkaði. Mér þykir betra að hann tali. Þetta á svosem við um flesta karlmenn, þeim finnst ekki gaman að tala um óþægilega hluti. Ætli Geir sé á mála hjá sama sála og ég? Hann er farin að láta allt flakka eins og ummæli hans um Bretana í dag sanna.

Davíð og Árni Matthíííí sen eru alltí einu orðnir þeir sem komu Kaupþingi á hausinn, því þeir hafa líklega óverdós af estrageni og töluðu of mikið og of vitlaust!

Sem betur fer hafa fermingardrengirnir (eða óreiðumennnirnir eins og amma hans Davíðs kallaði þá, og pabbi kallaði óreiðupésa) látið lítið fyrir sér fara og hafa annaðhvort fengið sér búrkur eða ganga um með hauspoka svo þeir séu illþekkjanlegir. Sögusagnir segja að sumir þeirra séu flúnir land. En það eru sögusagnir. Kolla mín, vertu bara á varðbergi, ef einhver ókunnugur með kaldar tær reynir að skríða uppí til þín.

Kona hefur loksins verið skipuð bankastjóri yfir nýjum Landsbanka hf, og þykir mér það batamerki á íslensku hagkerfi. Þó konum þyki yfirleitt gaman að versla þá held ég þær komist ekki með tærnar þar sem óreiðupésarnir höfðu hælana í innkaupaferðum sínum til útlanda. Konur eru varfærnar í svo mörgum málum og ég er ekki frá því, að áhyggjuskýjunum hafi eitthvað létt í augum sumra við að frétta það.

.. .en við spyrjum að leikslokum. Mér finnst mjög óeðlilegt ef við fáum ekki að gríta tómötum og eggjum í pésa dressaða Bossjakkafötum á Lækjartorgi þegar öll kurl verða komin til grafar. Ég vil láta draga þessa menn til ábyrgðar.

Er þetta ekki nokkuð góð lýsing á ástandinu í dag?

07 October 2008

Þessi frétt vakti athygli mína innan um hörmungarfréttirnar á mbl.is í kvöld.

Bíll sérhannaður fyrir konur, sjálfskiptur og með rat-tæki og sjálfvirkum hreinsunarbúnaði þegar maður þarf að skipta um dekk þegar punkterar.
.....þegar landið mitt sekkur og sogast endanlega niður í svartholið flyt ég til Íran með alla peningana mína *hóst*, kaupi mér svona "skvísubíl" og búrku. Ég er viss um að ég er ómótstæðilega hugguleg í búrku.
Fann þessa mynd og er viss um að við systur yrðum "NÁKVÆMLEGA" svona sexý í þessum frábæra klæðnaði.

05 October 2008

Stórasta gæjugat í.....


Það er heldur tíðindalítið á leitinu þessa dagana. Reyndar læsti ég unglinginn úti (Hörð frænda) í nótt og þurfti að beita áhöldum eins og hnífum og töngum til að koma honum inn um dyrnar og uppí rúm í morgunsárið. Snerillinn á hurðinni gaf upp öndina undir miðnættið líklega, og því brá ég á það ráð og taka hann af, áður en ég fór út í morgun svo mér yrði ekki úthýst. Afleiðingarnar urðu stórasta gæjugat í heimi líklega og virkar það frá báðum endum. Dáldið flott, finnst ykkur ekki?
Þetta gat er á stærð við fjármagnsþurrðarsvartholið í heiminum...sem ríkisstjórnirnar sitja sveittir yfir og reyna að stoppa í.

02 October 2008

Um síðustu helgi var "skvísu"helgi, en nú bendir ekkert til annars en það verði "krísu"helgi. Já, stundum er lífið svona ökla/eyra dæmi. Núna er semsagt öklinn inn. Reyndar frekar snúinn heyrist mér í öllum fjölmiðlum. Þetta er víst hið mesta ófremdarástand og held ég að það sé ágætt að vera eins og ég, eiga nánast ekkert og skulda ekkert nema húsið mitt, sem fyllir engar myntkörfur. Aldrei þessu vant er gott að eiga staðgreiðslu IKEA land á Háaleitinu en EKKI innlit-útlit íbúð á raðgreiðslum eða í myntkörfulánum. Ég held ég muni sofa rótt í nótt, svo framarlega sem mjólkurverð muni ekki rjúka upp úr öllu valdi, og ef svo verður mun ég tala við kúabóndann í Skagafirðinum og kaupa eina kú og tjóðra hérna í bakgarðinum.

Og yfir í allt annað....
Ég varð kjaftstopp þegar ég kom heim úr skvísuhelginni á sunndudagskvöldið, því á eldhúsbekknum sá ég fornan lykil. Ég þekkti lykilinn strax. Hann er líklega yfir 100 ára gamall af gömlum skáp sem fyrrverandi á og nýttist okkur sem hinn besti barskápur í hjúskapartíð okkar. Lykillinn týndist árið 2001 og er núna búin að flytja 3svar án okkar vitundar. Birna fyrrverandi mágkona og þáverandi og núveranda góð vinkona kom og gisti hjá mér í síðustu viku. Ég skildi hana eina eftir í íbúðinni og hún gróf upp lykilinn á ótrúlegum stað. Held að álfarnir hafi stolið lyklinum og legið á barnum í 7 ár en eru greinilega farnir í meðferð....

Annars tíðindalítið á dalnum.... segir himpigimpigellan...