29 March 2009


Heyrði sögu um helgina um mann sem fékk tannpínu og lagði sig. Honum var batnað þegar hann vaknaði daginn eftir.


Í gærkvöldi var mér illt í einni tönn, lagði mig og var batnað þegar ég vaknaði daginn eftir.


Dekur, dúll, nudd og nautnir er góð lýsing á gærdeginum. Hvítvín í hádeginu, nudd í heitum potti, andlitsböð og steinanudd er eitthvað sem ég er til í að upplifa miklu oftar en ég geri.


Til að viðhalda lærapokum og magakeppum hélt svallið áfram í Grafarvoginum fram undir miðnætti.


Þetta var svo erfiður gærdagur, að ég hef notað daginn í dag að mestu í slökun og hvíld *dæs*







25 March 2009


Ég sá hóp af appelsínugulum unglingsstelpum í dag í glimmergammósíum.


Voðalega finnst mér brúnkukremin illa lukkuð nú til dags.


Má ég þá frekar biðja um þennan fallega ná-lit sem við vinkonurnar berum af stakri prýði lungann úr árinu.




23 March 2009

Um gildi þess að gera ekkert!


Las færsluna hans Sr. Svavars hér til hliðar um gildi þess að gera ekki neitt. Ég er honum sammála. Mér finnst gott að gera ekkert.

Um síðustu helgi brugðum við Kópavogur okkur í bústað með börnin....að gera akkurat ekkert!

Snjáldurbókin og bloggsíður skildar eftir heima, ásamt mbl.is.
Hvað er hægt að gera í órafjarlægð frá veraldarvef?
1. Búa til snjóbolta og stinga inná rassinn og hoppa útí heitapottinn og búa til 3 brjóst.
2. Fara í keppni um hver getur legið lengst ber í snjónum eða eins og við gamla fólkið, hver gæti setið lengst í sólstólunum fullum af snjó (ég vann!)
3. Spilað laumu
4. Spilað Catan
5. Farið út í ausandi rigningu og spilað Mini-Golf þar sem allir voru sigurvegarar
6. Gengið í drulluleðju upp undir miðja kálfa meðfram Hvítá (rómantíkin blómstraði í pyttinum)
7. Fleytt kerlingum á ánni
8. Elduð dýryndis steik og meðí...
9. Sofið vel og lengi
10. Lesið Brennu-Njálssaga og endursögð í húslestrastíl og rýnt í gamlar gestabækur
Held að við ættum að gera meira af þessu......

17 March 2009

getur grís verið fiskur?

Steikti grísa-kreppýnettur í kvöldmatinn í kvöld að gömlum sið, með mús og grænum ora. Þær hafði ég fengið syndsamlega ódýrar svo ég neyddist til að setja poka í körfuna.

Eldamennskan tókst nú ekki betur en svo að hvorki Dofri né Þorsteinn vinur hans höfðu smekk fyrir þessu fína "kreppý eldhúsi" og þegar ég barðist við að koma ósómanum ofan í drengina sagði Dofri "mamma, mér finnst þessi fiskur ekkert góður".

Þetta er nú meira ruglið....

og enn er eftir í pokanum.....veit ekki hvernig í veröldinni ég ætla að koma seinni hlutanum í lóg.... ætli ég geti dulbúið matinn í eitthvað sja-du-la-vals dæmi??

15 March 2009


Jæja.. þá hef ég sóað lífi mínu þessa helgina.

Ryk-vefirnir eru á bak og burt og húsið ilmar af klósetthreinsiefnum!

Fötin í kommóðunni minni og fataskápnum hans Dofra eru ekki lengur eins og þau hafi verið í þeytivindu eða hrærivél heldur brotin fallega saman.

Eins og þráhyggjusjúklingur hafi farið hamförum á heimilinu.

Til að fullkoman þetta frábæra ævintýri fór ég í dag og keypti blettaeyði frá Helvíti og mýkingarefni frá Djöflinum. Ég sé ekki fram á að ég geti með nokkru móti hætt þessu þrifæði..... Er einhver sem getur bjargað mér frá þessu böli?

12 March 2009

Maður gerir oft heimskulega hluti þegar maður er ástfangin. Í kvöld "bauðst" ég til að fara með Hr. Kópavogi í kvöldgöngu að bera út áróðurspésa fyrir Samfylkinguna. Svona til að útskýra, þá ólst Addi upp í Hitlersæsku komma-Alþýðuflokksins og hefur ekki borið þess bætur síðan. Mér finnst það reyndar ágætt, þar sem ég er kommi innst inní mér, en aldrei myndi mér detta í hug að flokksbinda mig. Held það sé nóg að vera flokksbundin Jesú, í þjóðkirkunni, þó ég færi ekki að flokksbindast öðrum Guðum.

En kvöldgangan var bara næstum því rómantísk þó Kata Júl og fleiri kvennsniftir væru að flækjast fyrir í göngutúrnum í bælingaformi.


Þegar við komum heim með kalna fingur (sem þurfti nánast að fjarlægja vegna dreps), var Hr. Kópavogur svo huggulegur að hita kakó og færa mér til að koma örlitlu lífi í kroppinn minn. Honum finnst betra að ég sé á lífi og gefi frá mér lífsmerki.

Ég sé fram á þá tíð að ég geti sent hann í kristniboðsferðir um Kópavoginn..... svona í staðinn fyrir útburðinn....

09 March 2009


Thelma og Louise stukku uppí trukkinn hans Gísla og hentu börnunum afturí á föstudaginn og brunuðu norður til Akureyrar.


Gísli græjaði jeppann, allir naglar fasti, rafgeymir hlaðinn, og stelpurnar klárar fyrir "drátt" ef illa færi með spotta og skóflu.


Helgin var stutt en skemmtileg. 70 ára afmæli, leikhús, nýbakaðar kleinur hjá Þóru frænku og kaffihúsaferðir (ótrúlegt hvað maður getur gert margt á einum degi).


Heimferðin var hverjum trukkaökumanni öfundunarefni, þar sem ég náði að festa mig létt í skafli (fékk þó engan dráttinn) og aksturinn suður yfir heiðar var tafsamur og lýjandi vegna bandbrjálaðs óveðurs.


Í smekkfullum Staðarskála voru gáfulegir menn teknir tali og vitrænar umræður voru allsráðandi um veðurfar á Holtavörðuheiði og hvort ráðlegt væri að klífa yfir fjallið að svo búnu.


Eftir þónokkar vangaveltur og viðræður við neyðarkalla á staðnum og í síma, ásamt símtali við Hr. Kópavog sem saknaði mín til dauðs (líklega) ákváðum við að láta slag standa.


Jósteinn neyðarkall hoppaði uppí björgunarsveitarlandroverinn sinn og helmingur ferðalanga úr Staðarskála fylgdi honum eftir yfir heiðina í diskóljósum hvers annars ásamt Kristjáni Möller á blankskónum og stuttermabolnum. Var búin að heita mér því að biðja hann um að ganga á undan, ef færi svo, því hann samgönguráðherrann var líklegast sá verst búni maður til fjallaferða sem ég hef séð (svona fyrir utan flotta jeppann).


Anyhow.... yfir fjallið leiddi Jósteinn hjörð sína og Hr. Kópavogur beið með steik handa okkur stelpunum þegar við komum í bæjinn í gærkvöldi. Ég get svo svariða að ég hafði mig varla úr fötunum áður en ég var sofnuð á koddanum í gærkvöldi.


Mikil svakaleg trukkalessa er ég!!

04 March 2009

Bad hair day..eða var það kannski bad bus day..

Dagarnir eru misjafnir. Ég átti alveg ljómandi fínan dag en Hr. Kópavogur vaknaði og lifði í martröðinni í dag þar sem hver hörmungin rak aðra.
Ég geymdi Hr.Kópavog heima hjá sér í gærkvöldi þar sem hann sinnti henni Mörtu sinni í HR af einstakri aðlúð langt fram á nótt og náði loksins að skila verkefni til hennar seint um síðir. Þegar klukkan loksins hringdi var hann alls ekki tilbúin fyrir amstur dagsins og svaf yfir sig. Ég fékk nokkur sms í dag:

Ekki byrjar dagurinn vel. 2urinn minn er bara á hálftíma fresti eftir 9. Og hér stend ég úti á Kópavogsbrú og bíð þá í korter eftir næsta vagni. Eins gott að Marta vinkona þín samþykki verkefnið mitt. Annars þarf ég að finna út hvar hún á heima og mun halda vöku fyrir henni á næturnar með búsáhöldum.

....en Addi komst í strætó og léttist á honum brúnin, ég held hann hafi verið feginn að komast inní hlýjuna...og ég fékk sms...

Nú er ég komin í 2inn með rauðvínsglas og einkabílstjóra. Guð hvað náttúran er falleg og lífið sjálft brosir við mér.

Hann hafði ekki alveg rétt fyrir sér...en fínt að halda að lífið sé gott í augnablik. Þegar vinnudeginum hans var lokið fékk ég sms.

Anna klúðraði þessu. Ég missti af vagninum. En það kemur annar eftir nokkrar....

og ég fékk annað sms

Jæja nú tekur eitt ruglið enn við. Ég stökk uppí leið 15 sem á að enda hjá Versló. Skrattinn fer uppí Mosó fyrst. Ég veit ekki hvort ég þori að hitta þig í dag.

og svo fékk ég enn annað sms

Sennilega átti ég að taka 14 en ekki 15!

og nú var síminn minn að fyllast af örvæntingarfullum Kópavogsbúa.

Djókið ætlar ekki að enda. Mér var vísað út úr vagninum í Mosó á endastöð einhversstaðar í rassgati. Næsti vagn kemur eftir 12 mín. Þetta er martröð líkast!

En Addi komst aftur í bæjinn, búin að kynna sér strætóleiðir bus.is, missti af Mörtu í skólanum, af því hann var á rúntinum en er nú kominn í hús og ég er búin að vera voðalega góð við hann.

Ég vona svo sannarlega að það fari ekki allt í hund og kött í kvöld.