23 December 2009

Gleðilega jólahátíð


og njótið Guðs friðar og blessunar á nýju ári

20 November 2009

Og ég ber ríkidæmið með mér...


Ég uppgötvaði eitt í dag. Var að lesa þessa hræðilegilegu frétt á mbl.is
og það er ljótt að segja það en ég gladdist smá í hjartanu.
Ég er gullnáma!
Ég lúri á gulli, sit á gulli og ber ríkidæmi með mér. Halló..... 15.000 dollarar fyrir 1 lítra af fituvef....hó hó hó..... Þó fitusog sé ekki alveg gefins, þarf nú ekki að sjúga marga dropa til að hafa uppí kostnaðinn. Ég er greinilega miklu efnameiri en ég hafði gert mér grein fyrir. Ætla að hafa þetta í bakhöndinni ef harnar mikið í ári.


Ég vona bara að Steingrímur fatti þetta ekki og leggi stóreignaskatt á bústnar og búsældarlegar miðaldra konur.

02 November 2009


Ég keypti kjötfars og hvítkál í dag, í tilefni þess að rannsóknir sýna að maður verður þunglyndur á að borða unnar kjötvörur. Ég mun kenna móður minni alfarið um geðheilsu mína framvegis, þar sem kjötfars var oft og títt á borðum á heimili mínu þegar ég var barn og mér þykir það ákaflega góður unninn matur.

Sorglegt en satt, þá þekkti appelsínugula unglingskassadaman ekki hvítkálið og þurfti aðstoð reyndari og eldri konu (mína) til að bera kennsl á hausinn.

Það er margt skemmtilegt að gerast þessa dagana, þó mér þyki nánast grátlegt hvað barnalánin eru mikil barnaólán og velti fyrir mér hvort foreldrar séu fífl...kannski ekki allir foreldrar en sumir.

En ég legg ekki meira á ykkur í bili. Jólin eru alveg að koma ;)

06 October 2009

Jólaævintýri


Um kvöldmatarleytið í gær, þegar ég og Dofri voru bæði komin í náttfötin og nýbúin að borða fiskinn hringdi síminn.

Jólasveinninn var í símanum og sagði farir sínar ekki sléttar. Hann var að koma af fjöllum en missti af fjalla-strætó! Hann sagði okkur líka að það moksnjóaði úti.

Ég og Dofri rétt náðum að hemja okkur í jólaundirbúningsæsingnum, nema hvað okkur (lesist mig) langði að hitta jólasveininn aðeins og taka forskot á jólasæluna, svo við ákváðum að stökkva út á náttfötunum, fara í bíltúr og leita jóla uppi.

Í kafhríð keyrðum við uppá hálendi Kópavogsbæjar og mitt í kafhríðinni sáum við mann.....nei..það var víst ruslapoki sem hafði vafist um ljósastaur...svo við keyrðum lengra, og stuttu seinna fundum við jólasvein í fullum skrúða, snjóhvítan og blautan.

Þegar heim var komið þíddi ég jólasveininn upp, kveikti á kertum, Dofri spilaði á gítar og við höfðum kósíkvöld.

*Voðalega hlakka ég til jólanna....og að komast í tæri við vetrardekkin mín sem eru veðurteppt norður í landi**

24 September 2009

Skvísudagar í haustlitum


Vordís rukkar sögur úr húsmæðraorlofinu eða Skvísudögum eins og helgin heitir opinberlega. Það er miklu meiri glamúr yfir því nafni.

Helgin var skemmtileg, ég fór með 6 bjóra með mér og kom heim með 5. Þá er gaman ;o)

En því miður Vordís, What goes around in húsmæðraorlof stays in húsmæðraorlof!... þannig að sögurnar af því hver var með mestu loðnuna, hver átti kjánalegustu söguna af eiginmanninum eða hvaða perraskapur viðgengst við hinar ýmsu daglegu athafnir munu haldast meðal grúpppíanna og ekki fara lengra.
En ég get svo sem upplýst að mér finnst ég töluvert nánari einni vinkonu minni eftir þessa helgi en áður þar sem við deildum bæði rúmi og tannbursta. Ef ég væri lesbía værum við eflaust giftar, eða... on second thought.... líklega ekki, því þó ég væri lesbía væri hún það líklega ekki og því líklega bara gift gaurnum sem hún er gift en ég kannski bara piparlesbía. *Smá vangaveltur*

En ég föndraði 2 lampa í orlofinu, kláraði einn bútasaumsdúk, gerði við skó og svefngrímur og bjó til 2 gullfalleg jólakort svo eitthvað sé nefnt.......svona á milli pottaferða...og hörpuskelsmáltíða.

Stundum er dásamlegt að kæra sig kollótta um einhverja kreppu og gera sér dagamun með frábærum vinkonum.





17 September 2009

Greyjið meinti fjársvikarinn

Heyrði viðtal við meintan fjársvikara í sjónvarpsfréttunum í kvöld, þar sem hann lýsti lífi sínu eftir að breska lögreglan hafði hendur í hári hans. Hann var laus úr fangelsi á tryggingu, en líf hans var ömurlegt. Hann þurfti að vera heima hjá sér frá kl 10 á kvöldin til 7 á morgnana. Mæta á lögreglustöðina í hverfinu á hverjum morgni og má ekki yfirgefa landið.

Ég er nú ekki grunuð um fjárglæpi, en ég get ekki séð að þessi maður hafi það nokkuð verra en ég, þannig séð. Ég er heima frá 10 -7 og fer í vinnuna á hverjum morgni í hverfinu og hef ekki efni á að fara til útlanda. Svona næstum eins og allir heiðvirðir Íslendingar.

En hver átti 10 mills til að borga hann út??

PS. Skvísuorlofið hefst á morgun. Ég ætla að vinna keppnina um loðnustu leggina þetta árið og hef safnað alveg síðan í fyrra......vvvííííí..... ÉG hlakka svo til.....

14 September 2009

Gullkorn dagsins..


Heyrði konu í útvarpinu sem kvartaði yfir því að eini starfsmaðurinn sem hún sá "inni" í Hagkaup hefði verið gína (fyrir utan stúlkuna á kassanum sem vann við að taka við peningum). Mér fannst það fyndið. En það var líka fyndið þegar þáttastjórnandinn spurði hvort margir viðskiptavinir hefðu verið í búðinni. Konan svaraði " nei, það voru örfáir, einstaka á stangli, mátti telja þá á einum fingri"!

En svo ég klemmi röddina og kvarti, þá hef ég oft lent í því að Hagkaup hafi bara gínur sem starfsfólk inní búðinni. Það er etv aðeins viðráðanlegra heldur en lifandi starfsfólk og situr og stendur eins og verslunareigendur vilja!!
Ps. þessar gínur virðast vera frekar þreyttar á vinnunni og pirruðum viðskiptavinum... Dálítið fúl-lyndar.