24 December 2008


GLEÐILEG JÓL



FARSÆLT KOMANDI ÁR


FULLT AF ÁST OG FRIÐI
óskum ég og Dofri,
ykkur og okkur til handa

23 December 2008

Þorláksmessukvöld, og ég búin að eiga yndislegan dag, hitta fólkið mitt, drekka kaffi, skreyta, fara á rúntinn með mömmu og útrétta það síðasta. Eins og alltaf er ekkert jólastress í foreldrahúsum. Pabbi og mamma hafa aldrei farið yfir um af jólastressi og aðdragandi jólanna er afskaplega notalegur og afslappandi.
Ég og Dofri minn brunuðum norður á sunnudaginn og náðum að vera á undan hlákunni. Tróð ég rúmlega einni gjafa-búslóð í litlu elöntru og pabbi og mamma skildu engan veginn hvernig mér tókst að koma öllum varningnum sem ég mætti með inná gang, í gamla rauð. Ég held að bíllinn minn sé eins og Mary Poppins-taskan. Það er endalaust pláss.
Við erum eins og blóm í eggi hérna fyrir norðan og lífið er dásamlegt. Sendi mínar bestu kveðjur suður heiðar og Hr. Kópavogur, þú ert alveg ljómandi ;o)

Jóla hvað??..... Drukknaði í teskeið!

19 December 2008


Þá er frúin á Háaleitinu komin í jólafrí! Lífið er dáldið tætt þessa dagana, en þó hefur tætingurinn skilað sér í fullum kassa af jólagjöfum sem þurfa að leita eigenda sinna, eldrauðu jólahári sem Pink væri stolt af og 3 gömlum skópörum sem gengu í endurnýjun lífdaga við heimsóknina til skósmiðsins.

Skóarinn hefur í mögu að sýsla, og skilst mér að jafnvel heldri frúnnar í hverfinu komi með skóna sína til upplappingar í staðinn fyrir að kaupa sér nýja. Mér finnst gaman að heimsækja skóarann. Hann er eldri karl, sem er ekkert að stússast með eitthvað númeramiðasystem, heldur merkir skóna "Kolbrún". Svo kem ég og sæki og bendi bara á skóna sem ég ætla að sækja, því hann hefur ekki hugmynd um hvaða skó ég kom með. Valdi ég mér úrvals fallega skó úr hillunum hjá honum. Hann er alltaf glaður og ég velti því smá fyrir mér hvort það sé vegna límlyktarinnar sem svífur á mann í dyrunum.

Ég veit ekki alveg hvað er að gerast, en ég er dottinn í vísa kortið og það er glóandi heitt af ofnotkun þessa dagana. Mig langar ótrúlega til að kaupa mér bíl, 4x4 bíl. Mér finndist það nú viðeigndi jólagjöf handa mér frá mér. En kannski óraunhæf, veit ekki alveg.....


16 December 2008

heima er best

Síðasta vinnuvikan byrjuð og jólafríið mitt nálgast. Mér finnst aðventan svo yndislegur tími, en neita því ekki að annir desember þetta árið hafa verið meiri en oft áður. Kannski af því að ég byrjaði of seint. Núna er ég búin að fatta hvað er guðsblessunarþakkarvert að vera búin að versla jólagjafir áður en desember byrjar. Eins og ég er nú skemmtileg innanum annað fólk, þá fúnkera ég mjög illa í mannmörgum verslunum. Í desember sneiði ég hjá öllum verslunarmiðstöðvum ef ég mögulega get og held mig heima við, með kaffi, kerti og kökur. Læt umheimin alveg lönd og leið.... heima er best!

12 December 2008

Hamingjupirringur?!


Hamingjan svo yfirþyrmandi að ég hef ekkert til að pirra mig yfir þessa dagana nema jólafrímerkjunum. Hverslags ljótuveiki kom yfir hönnunar-stílista frímerkjadeildar Póstsins? Held þetta séu þau al ljótustu merki sem ég hef klínt á kortin mín í áravís. Nú skil ég af hverju boðið er uppá sjálf-hönnunardæmi á netinu og fólk geti skipt út leggjalanga og búkbreiða sveinka fyrir brosandi mynd af fallegu fjölskyldunni. Ég neitaði að kaupa jólasveinamerki og bað um eitthvað annað og fékk skárra. En ljóti jólakötturinn fór víst á bréfin til útlanda og hér með bið ég viðtakendur velvirðingar á þessu ósmekkleysi, en þorskurinn og virkjanirnar voru í sama flokki og kattarófétið. Í ljótudeildinni!
Já lífið er gott, og jólin að koma. Gott að jólamerkin eru pirringur desembermánaðar ;o)
Góðar stundir!

08 December 2008

Sker'í laufabrauðskökur?


Þær voru ekkert voðalega skerí laufabrauðskökurnar sem við skárum í eftir vinnu í dag, en afskaplega girnilegar. Reyndar voru kökurnar hans Þorsteins Péturs smá meira skerí en fallegu handunnu kökurnar hennar Önnu Guðnýjar, en allar höfðu þær sinn sjarma, hvort sem þær væru grófgerðar eða fínna unnar. Anna Guðný, Dofri, Þorsteinn og Ninna mín voru eitilhörð í útskurðinum. Til umræðu kom að gera eina köku með upphafsstöfunum DO fyrir Davíð Oddsson, en eftir smá umhugsum fannst okkur hann ekki eiga hana skilið. En annað finnst mér þó verra. Í ár gleymdi ég að gera eina köku fyrir Jesús, en það hefur ekki gerst í mörg ár. Fyrirgefðu Jesús, ég skal gera tvær kökur fyrir þig að ári. Mun ekki klikka aftur!

07 December 2008

ég er ekki alveg samviskulaus...

Nú verður sumum hlutum ekki slegið lengur á frest. Mig er farið að langa til að jólaskreyta, en fæ mig ekki til að skreyta yfir þumlungarlag af ryki og skít! Ef við hefðum verið að tala um svona cm dæmi, þá hefði ég ekki áhyggjur af því. Þannig að nú uppúr hádegi mun náttfatasófapartýinu slúttað og ég ætla að reka skít og drullu út úr mínum húsum með mr.Proper sem aðalvopn! Vona að hann nýtist vel í þetta verkefni, stæltur, sterkur, ákveðinn, blíður og jafnvel dáldið ástleitinn.....#$#%#$% hlakka ég til að sjá hann vinna ;o)

04 December 2008

knúsavöruskipti kosta engan pening!

Ég fór í búð í dag og sagði við afgreiðslumanninn " Mig vantar eitt stk. jólaknús! Áttu ekki svoleiðis?" Hann átti svoleiðis, og ég fékk svoleiðis, þurfti meira að segja ekkert að borga fyrir nema með knúsi til baka. Svona vöruskipti virka vel í kreppnunni.

01 December 2008

Ég er berdreymin!

Varð fyrir mjög óvæntri reynslu fyrr í kvöld þar sem ég upplifði drauminn sem mig dreymdi í síðustu viku. Ég fór á jólatónleika í Fíladelfíu og hver skildi hafa dúkkað upp þar nema hann Jónsi minn í svörtu fötunum! Hann blikkaði mig og laumaði til mín miða með símanúmerinu sínu, rétt áður en hann skrönglaðist á sviðið og tók eitt jólanúmer með Edgari Smára. Þarna rættist kaffihúsadraumurinn. Dúddahljómsveitin var öll mætt í bakgrunni og spilaði að hjartans list og gott ef Kata systir var ekki þarna í bakröddum (gospelkórnum) eða allavega eitthvað tvíburaklón sem átti annað klón annað staðar á sviðinu. Er þetta flókið? Tónleikarni frábærir og ég skemmti mér konunglega og gott ef ég er ekki búin að næla mér í miða á jólatónleika með henni Carola Haggkvist þann 17.des. Vonandi kemur hún með vindvélina með sér til Íslands.