19 January 2009

Barnaþrælkun á Íslandi

Dofrinn minn kom heim í dag og gleðst ég óskaplega yfir því að geta kúldrast með þessu hálffullorðna barni næstu vikuna. Við erum búin að spjalla dáldið, syngja skátalög og lesa, en mestur og verstur þótti Dofra heimalærdómurinn, sem var afskaplega glaðlegur, upplífgandi og kátínugefandi eða NOT. Svona hljómaði textinn sem Dofri átti að apa upp í stílabókina sína.

"Íslendingar hafa alltaf veitt fisk úr sjónum. Fyrst réru menn til fiskjar á litlum árabátum, síðan bættust skútur við, þá litlir vélbátar og síðar stærri og fullkomnari skip með sífellt afkastameiri veiðarfæri. Áður fyrr veiddur stórir flotar erlendra veiðiskipa fisk við strendur landsins en nú ráða Íslendingar sjálfir yfir stóru svæði í kringum landið og stjórna þar veiðunum. Miklar framfarir hafa líka orðið í fiskvinnslunni"

Náði einhver að lesa alla leið án þess að deyja úr leiðindum? Þeir sem dóu, rétti upp hönd! Gott ef hann Georg Bjarnfreðarson hafi ekki samið þennan texta.

Á meðan Dofri var að troða stöfunum í stílabókina var þáttur á Rúv-inu um barnaþrælkun og ég læt útúr mér "greyjið börnin, látin vinna 17 tíma á dag". Þá fussar í Dofra og hann segir "kva....er það eitthvað meira en það sem ég er í skólanum?"

... ætli sé stunduð barnaþrælkun í grunnskólum landsins. Námsefnið svo þurrt og leiðinlegt að 6 tíma skóladagur verður að 17 tíma barnaþrælkun í hugum nemenda? Þetta útskýrir alveg af hverju stór hluti þjóðarinnar flokkar bláar og bleikar pillur í gríð og erg og bryður, sér til gleði og yndisauka.

No comments: