09 October 2008

Þessi færsla er sérpöntuð fyrir fallhlífastökkvarastelpuna nöfnu mína í Ameríku sem bíður með gestakojurnar ready þegar íslenskir vinir og ættingjar flýja sökkvandi sker.

Geir er farinn að opna sig og heldur blaðamannafundi á hverjum degi þar sem skýrt er frá óskýrri stöðu mála á bankamarkaði. Mér þykir betra að hann tali. Þetta á svosem við um flesta karlmenn, þeim finnst ekki gaman að tala um óþægilega hluti. Ætli Geir sé á mála hjá sama sála og ég? Hann er farin að láta allt flakka eins og ummæli hans um Bretana í dag sanna.

Davíð og Árni Matthíííí sen eru alltí einu orðnir þeir sem komu Kaupþingi á hausinn, því þeir hafa líklega óverdós af estrageni og töluðu of mikið og of vitlaust!

Sem betur fer hafa fermingardrengirnir (eða óreiðumennnirnir eins og amma hans Davíðs kallaði þá, og pabbi kallaði óreiðupésa) látið lítið fyrir sér fara og hafa annaðhvort fengið sér búrkur eða ganga um með hauspoka svo þeir séu illþekkjanlegir. Sögusagnir segja að sumir þeirra séu flúnir land. En það eru sögusagnir. Kolla mín, vertu bara á varðbergi, ef einhver ókunnugur með kaldar tær reynir að skríða uppí til þín.

Kona hefur loksins verið skipuð bankastjóri yfir nýjum Landsbanka hf, og þykir mér það batamerki á íslensku hagkerfi. Þó konum þyki yfirleitt gaman að versla þá held ég þær komist ekki með tærnar þar sem óreiðupésarnir höfðu hælana í innkaupaferðum sínum til útlanda. Konur eru varfærnar í svo mörgum málum og ég er ekki frá því, að áhyggjuskýjunum hafi eitthvað létt í augum sumra við að frétta það.

.. .en við spyrjum að leikslokum. Mér finnst mjög óeðlilegt ef við fáum ekki að gríta tómötum og eggjum í pésa dressaða Bossjakkafötum á Lækjartorgi þegar öll kurl verða komin til grafar. Ég vil láta draga þessa menn til ábyrgðar.

Er þetta ekki nokkuð góð lýsing á ástandinu í dag?

2 comments:

Anonymous said...

jú fín. en þetta er allt svo dapurlegt.

Kolbrun DeLux said...

Það er sko alveg satt, þegar maður hættir að vera ironískur þá finnst manni þetta óskaplega sorglegt.