11 October 2008

Skokkaði lítinn hring í hverfinu mínu í morgunsárið og sá ekki betur að Ísland væri við hestaheilsu svona líffræðilega. Lífið og tilveran brosti á móti mér, sól og blíða, Esjan falleg og Laugardalurinn í sínu fallegasta pússi. Hann skreyttu svo eldra fólk á morgungöngunni og einstaka unglamb á hlaupum.

Blótaði mér í sand og ösku yfir því að rekast alltaf á myndarlega lögreglumanninn á eftir hæðinni þegar ég er nývöknuð með Jonny Rotten hárgreiðsluna eða á kartöflusekkjanáttfötunum úr RL í þvottahúsinu. Hvernig væri nú að ég reyndi að vera hugguleg til fara svona einu sinni þegar ég rekst á þetta barn?! Set það á To do listann minn ;o)

Í gærkvöldi var svona sjálfsknúsarkvöld hjá mér. Kveikti á kertum, fór í náttföt og skenkti mér hvítvíni í eitt glas, dempaði ljósin og sleit svo loftnetssnúruna í sundur í einhverju brasi og endaði með verkfærakassann á gólfinu, töng í einni hendi og dúkahníf í hinni. Sjálfselskan og rómantíkin sem hafði skapast við kertalýsinguna rauk útí verður og vind og nú snjóar í sjónvarpslandi, frekar meira en áður. Fattaði ekki banka uppá hjá löggunni og leika bjargarlausa konu. Stupid woman!!!!

4 comments:

Anonymous said...

Við Rannveig verðum að fara að reyna að koma þér í góðar hendur. Þetta gengur ekki svona. Sjónvarpið verður að komast í lag.

Katy

Anonymous said...

aldrei of seint að leika bjargarlausa konu, prófaðu það bara í kvöld;)

Anonymous said...

Heitir hin margrómaði lögreglumaður kannski Nökkvi? Reyndar varstu nú að reyna að troða þessum Nökkva upp á mig í draumnum góða. Ef svo er ekki þá held ég að draumurinn boði það að hin yfirskeggjaði Nökkvi komi og bjargi sjónvarpinu þínu
kveðja af eyrinni
GEH

Kolbrun DeLux said...

Katy: Ég er greinilega alsendis ófær í þessu lögreglumáli sem og öðrum málum. Ég þygg alla hjálp með þökkum. Hvenær komið þið og lagið sjónvarpið mitt?

Baun: kannski ég setji upp andlitið, skelli mér í slopp og slippers, rölti upp á hæðina og ber mig illa...tja eða voða þokkafullt, það myndi líklega virka betur.

Gunnfríður: Hef ekki glóru hvað huggulegi lögreglumaðurinn heitir. Ég skal spyrja hann næst hvort hann sé Nökkvi og eigi yfirvaraskegg í náttborðsskúffuni sem hann taki upp við hátíðleg tækifæri.