09 March 2009


Thelma og Louise stukku uppí trukkinn hans Gísla og hentu börnunum afturí á föstudaginn og brunuðu norður til Akureyrar.


Gísli græjaði jeppann, allir naglar fasti, rafgeymir hlaðinn, og stelpurnar klárar fyrir "drátt" ef illa færi með spotta og skóflu.


Helgin var stutt en skemmtileg. 70 ára afmæli, leikhús, nýbakaðar kleinur hjá Þóru frænku og kaffihúsaferðir (ótrúlegt hvað maður getur gert margt á einum degi).


Heimferðin var hverjum trukkaökumanni öfundunarefni, þar sem ég náði að festa mig létt í skafli (fékk þó engan dráttinn) og aksturinn suður yfir heiðar var tafsamur og lýjandi vegna bandbrjálaðs óveðurs.


Í smekkfullum Staðarskála voru gáfulegir menn teknir tali og vitrænar umræður voru allsráðandi um veðurfar á Holtavörðuheiði og hvort ráðlegt væri að klífa yfir fjallið að svo búnu.


Eftir þónokkar vangaveltur og viðræður við neyðarkalla á staðnum og í síma, ásamt símtali við Hr. Kópavog sem saknaði mín til dauðs (líklega) ákváðum við að láta slag standa.


Jósteinn neyðarkall hoppaði uppí björgunarsveitarlandroverinn sinn og helmingur ferðalanga úr Staðarskála fylgdi honum eftir yfir heiðina í diskóljósum hvers annars ásamt Kristjáni Möller á blankskónum og stuttermabolnum. Var búin að heita mér því að biðja hann um að ganga á undan, ef færi svo, því hann samgönguráðherrann var líklegast sá verst búni maður til fjallaferða sem ég hef séð (svona fyrir utan flotta jeppann).


Anyhow.... yfir fjallið leiddi Jósteinn hjörð sína og Hr. Kópavogur beið með steik handa okkur stelpunum þegar við komum í bæjinn í gærkvöldi. Ég get svo svariða að ég hafði mig varla úr fötunum áður en ég var sofnuð á koddanum í gærkvöldi.


Mikil svakaleg trukkalessa er ég!!

4 comments:

Anonymous said...

Já, Jósteinn og karlpeningur af hans ætt og kyni víla nú ekki fyrir sér einn fjallveg eða svo þegar mikið liggur við. Gott ef þeir hafa ekki bara líka svolítið gaman af í tillegg.

Kata bestasys

Kolbrun DeLux said...

Jú, mér sýndist hann alsæll á svip og vottaði fyrir tilhlökkun í fasi hans. Ekta karlaeitthvað...

Anonymous said...

Gott að vita að þú komst heil heim... hvernig færi fólk að ef við neyðarkallarnir værum ekki til :o) og auðvitað værum við ekki í þessum ef við hefðum ekki smá gamanaf þessu...

Kolbrun DeLux said...

Sveitadrengur: Heimurinn væri snauður af neyðarköllum ef þið væruð ekki til ;o)....eins gott að þið fáið eitthvað útúr þessu...