27 November 2008

Draumráðningar óskast...

Jónsi í Svörtum fötum hringdi í mig og bauð mér á kaffihús. Honum leiddist! Ég þáði boðið og hitti hann á svölu kaffihúsi í miðbænum. "Hvar er Rósa" spyr ég, og hann segir að hún sé að hitta vinkonur sínar. Við fáum okkur kaffi og ég segi "Hvað er að frétta af Þórði bróður þínum?, er hann ekki alltaf fyrir austan?" "Jú,..jú... hann hefur það fínt" segir Jónsi. Hann fer svo eitthvað á bakvið því hann var kallaður í símann (svona snúrusíma) og þá sé ég Kötu systir í karókí röðinni, ásamt haug af 10 ára gömlum gelgjum. Þetta var glænýtt karókí-kerfi, alveg ógeðslega flott og allir vildu prófa. Ég spyr Kötu hvort hún ætli virkilega að prófa. Ójá, hún var dauðæst í það. Jónsi kemur aftur og hjá okkur setjast einhverjir dúddar og kaffið er klárað. Ég þakka fyrir mig og vakna, því alltí einu er komin morgun og ég þarf að fara í sturtu.


Þetta var einstaklega djúpur og merkingarlegur draumur. Nú langar mig í draumráðningar! Hver ræður í þessa speki?

24 November 2008

Borgara-fundur!

Á meðan ég sit á sófanum er haldin fundur borgara / greiðenda í Háskólabíói. Það er stútfullt bíó af skuldurum Íslands sem hafa nákvæmlega ekkert til skuldarinnar unnið og nú bregður bleik, því mér sýnist að Geir Haarde og Ingibjörg séu mætt til að horfast í augu við borgarana. Þorvaldur Gylfason fer á kostum og ég hef það á tilfinningunni að þetta verði fjörugur fundur.
Ég er ekki komin í "doðann" og er dáldið mikið "reið" ennþá!

22 November 2008


Berrassaði maðurinn bankaði uppá og mátaði nærbuxurnar. Þær voru ekki passandi og því voru góð ráð dýr. Eftir mikið bax og bis var notuð öskubuskuaðferðin og öxin sótt. Nú er hann glansandi fínn í leppunum úr Bónuspokanum og sendi ég hann út á lífið glaðann og reifann. Ég er líka glöð að Bónusfatapokinn er ekki lengur að þvælast fyrir heima hjá mér og vona að "gaurinn" minn jafni sig á áfallinu sem hann fékk við að finna ókunnar karlmannsbrækur á sínu yfirráðasvæði. Þetta er ekki auðvelt þetta líf.


20 November 2008

Karlmannsbrækur í óskilum


Áður hef ég bloggað um karlmannsplögg sem skilin eru hér eftir í algjöru reiðileysi og ég reikna fastlega með að Andreas sé enn sokkalaus, því parið hans bíður spennt eftir honum í forstofunni síðan hann skildi það eftir um daginn á leið sinni til Svíþjóðar. En nú bregður svo við að í gærkvöldi fann ég Bónuspoka, sem í voru nærbuxur, bolur og sokkar. Karlmannsnærbuxur, karlmannsbolur og karlmannssokkar! "ÓHREINAR" nærbuxur, bolur og sokkar! Svo óheppilega vildi til að "gaurinn minn", áður nefndur c)liðurinn þverneitaði fyrir að hafa dúkkað hér upp með nærföt í Bónuspoka og krafðist skýringa á ástandinu. Hum....mér varð orða vant og auglýsi hér með eftir eiganda Bónuspokans, og mun héðan í frá reyna að hafa betri stjórn á því hverjir hátta sig á mínu heimili!

17 November 2008

Kreppubusiness...


Nú er hart í ári og Baunin farin að bjóða upp eigur sínar gegn vöruskiptum.




Ég ætla mér að krækja í brúnu könnuna og býð á móti forlátan písk, sem er á lengd við gæðafarsíma frá árinu 2002, og páskaskraut til að hengja á jólatré!
Hvernig lýst þér að það Baun?
Ef að Bauninni hugnast ekki þessir hlutir, er öðrum velkomið að bjóða í með ámóta gagnslausum hlutum.

..meira í dag en í gær..

Í dag skulda ég 2 milljónum meira en í gær, eða jafnvel 4 milljónum meira, þar sem Dofri minn er ekki fjárráða og allar hans skuldbindingar eru mínar.

4 milljónir vegna þess að Björgúlfsfeðgar fóru að leika sér í útlöndum!

Fussum svei.... ég er enn bálreið... er súr yfir því að hafa látið ESB vaða yfir okkur í valdi stærðar sinnar og kúga okkur til hlýðni. Ég skil ekki hvernig fólki dettur í hug að sækja um aðild að slíkum samtökum. Akkurat núna er ég MJÖG á móti því að við göngum í Evrópusambandið. Sé ekki að við munum græða nokkuð á því nema valdníðslu og yfirgang.

14 November 2008

Djúsí færsla fyrir Dýrleifu og Pálínu.
Rauðvín komið í glas og kossar og kelerí í eldhúsinu halda mér frá blogginu. Gaurnum finnst þó mér beri skilda til að uppdeita þreyttar vinkonur mínar á "ástandinu", rasskellir mig og sendir mig öfuga inní stofu (líklega til að eiga eldhúsið einn). Nú á að kynna Frú Kolbrúnu fyrir einhverjum fjölskyldumeðlimum ættaða úr Kópavoginum. Það er örugglega þess vegna sem ég ákvað að fá mér rauðvín í fyrra fallinu! Þetta verður áhugavert kvöld!!

Góðar skuldir.... nei.. meina stundir!

11 November 2008

Nú er einum færri skítbuxanum í þinghúsinu okkar (sem betur fer) og það besta var að hann féll á eigin bragði. Væri óskandi að fleiri tækju sér hann til fyrirmyndar og létu sig hverfa. Það er einhver fnykur og ólykt í alþingishúsinu okkar og þyrfti að lofta duglega út og gera góða "jóla"hreingerningu. En ég veit svo sem ekki hvort það bæti nokkuð að lofta út, þar sem ólyktin er líka utandyra. Mér líður eins og einhver sé að bera mykju á túnin sín hérna umhverfis húsið mitt, nema ef vera skildi að "auðvaldshyggjupúkarnir" séu enn að velta sér uppúr siðspillingardrullunni þrátt fyrir allt sem á undan er gengið.
Er einhver furða þó maður efist um að þessir menn eigi nokkuð eftir að læra af efnahagshruni okkar Íslendinga, sem þeir bera alfarið og eingöngu ábyrgð á?!

08 November 2008

Þrátt fyrir almenn leiðindi á markaði og í efnahag, þá hefur lífið sjaldan verið eins ánægjulegt og nú um stundir. Er farin að vita fyrir vissu að allir snjóskaflar bráðna, él birtir upp um síðir og sumar kemur í sálina eins og árstíðaskipti eru á heimskringlunni. Nú er einmitt sumar eftir nokkuð þungan vetur snemma í haust í minni sál.

c)liðurinn í færslu 25.október virðist vera enn á lífi. Er búið að sjúkdómsgreina hann og er hann með ólæknandi ástarkollu-krabbamein sem breiðst hefur út um líkamann, og ég, sýkillinn mun gera mitt besta til að engin lækning finnist við þessari tegund krabbameins. Ég tel að um góðkynja æxli sé að ræða. Gott ef hann er ekki bara "keeper", en það mun tíminn leiða í ljós. Mér þykir allavega alveg óskaplega gaman og notalegt að vera í návist hýsilsins og hann fær mig til að hlæja og akkurat núna ætla ég bara að njóta þess að líða vel. Vona bara að meinið leggist ekki svo þungt á hann að ég murki úr honum líftóruna.

Í tilefni alls þessa þykir mér viðeigandi að horfa á einn klassiker, sem "yfirdrátturinn" á Laugarásvídeó var svo almenninlegur að grafa upp fyrir mig. Ætla á sófann og horfa á Kryddlegin hjörtu, þá dásamlegu ræmu á spólu, já þær eru víst enn til.
Góðar stundir!

05 November 2008

hlýtt...og gott??

Nú eru óvenjuleg hlýjindi í nóvember. Í dag er 8 stiga hiti. Ætli ástæðan sé sú að farið sé að kynda meira í hinu neðra, í undirbúningi fyrir væntanlega stórveislu peningamongúlanna sem eru búnir að leika okkur grátt. Ég reikna fastlega með að þeirra bíði móttökunefnd þar!

03 November 2008

Nú er ég loksins orðin alveg voðalega reið...

...blá í framan af reiði, hneigslun og skömm er ég yfir því hvernig íslenskir fermingadrengir sem mættu í bankann sinn á milli flugferða í einkaþotum hafa hagað sér. Svo eru bara allar skuldir við þessa höfðingja afskrifaðar eins og ekkert annað væri sjálfsagðara fyrir hvað??....50 millJARÐA! Engar skuldir eru afskrifaðar hjá okkur fólkinu í blokkunum, í passlega stóru húsunum okkar sem við munum borga af það sem eftir er ævinnar, eða þær skuldir sem fólk stofnaði til að áeggjan ríkisstjórnarinnar og bankanna í hlutabréfakaup (sem betur fer fór það allt framhjá mér)... ég gæti þusað og þrasað hérna langan og leiðinlegan söng, en læt hér staðar numið. Mér þykir óskaplega sorglegt þegar siðleysið er algjört!

En þessi söngur þykir mér dáldið cool....og miklu flottari en bölmóður minn.

http://www.youtube.com/watch?v=e8Yv0NluonQ&feature=related

01 November 2008

Brjósta-Þrif!

Dr. Phil malar í bakgrunni og ég heyri útundan mér að aaammerísk frú segir að hún sé svo brjóstastór að hún geti ekki þrifið í kringum sig. *Dæs* best að drífa sig í hreingerningar, ég hef víst engar afsakanir.....